Karlakór Vestmannaeyja

Fyrst stofnaður 1881

Sá Karlakór Vestmannaeyja sem starfar í dag var stofnaður um miðjan apríl árið 2015 og var það í fjórða skiptið sem vitað er að Karlakór Vestmannaeyja tók til starfa.
Forsaga endurvakningarinnar er sú að Ágúst Halldórsson fékk þá flugu í höfuðið eftir að hafa fylgst með Fjallabræðrum ganga um Herjólfsdal og fagnað sem rokkstjörnum að þetta væri eitthvað sem hann vildi upplifa. Með aðstoð samfélagsmiðla henti hann hugmyndinni út í kosmósið og fékk valinkunna menn sér til aðstoðar. Nokkrum klukkustundum síðar var kominn vísir að karlakór. Tilviljunin ein réði því að akkurat um þessar mundir hafði ráðið sig til söngkennslu við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum, Þórhallur Barðason. En hann hafði mikla reynslu af kórstjórn og hafði t.a.m. nýverið sigrað Söngkeppni Framhaldsskólanna með Kór Tækniskólans. Honum var því boðið starf stjórnanda hins nýja Karlakórs Vestmannaeyja, sem hann þáði með þökkum.

Hlutirnir gerðust hratt og streymdu að karlmenni sem vildu vera með. Áður en langt var liðið var kórinn kominn í sjónvarpið og öll stærstu svið landsins, Herjólfsdal og Hörpu. Hefur kórinn verið sísyngjandi síðan þá.

Í lok ársins 2022 dróg Þórhallur sig í hlé sem stjórnandi og tók Matthías Harðarson, núverandi stjórnandi, við sprotanum.

Aðal undirleikari kórsins er og hefur verið frá upphafi Kitty Kovács. Þó ýmsir hafi þó hlaupið inn í forföllum.

Þórhallur Barðason skrifar undir ráðningasamning við Karlakór Vestmannaeyja þann 15. apríl 2015.
Kórinn var valinn Bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2018.
KKVE hinn þriðji

1941-1960

Karlakór Vestmannaeyja var stofnaður 21. september 1941. Fyrsti stjórnandi hans var Helgi Þorláksson, þá barnakennari í Eyjum, síðar skólastjóri í Reykjavík.
Árið 1944 gerðist Ragnar G. Jónsson, organleikari Landakirkju, stjórnandi hans.

Næstu 10. árin stjórnuðu honum ýmsir nafnkunnir söngstjórar, svo sem Pálmar Eyjólfsson, Guðmundur Gilsson, Guðjón Pálsson, Leifur Þórarinsson og svo Ragnar G. Jónsson í þriðja sinn 1958. Ragnar stjórnaði þá kórnum fram yfir 1960 er hann flutti frá Eyjum og hætti starfsemi kórsins í kjölfarið.

Mynd hér að ofan var tekin af kórnum, er hann fór söngför um Suðurland 1947.
Aftari röð frá vinstri: Hjörleifur Guðnason, Högni Sigurðsson, Knud Andersen, Óskar Steindórsson, Skarphéðinn Vilmundarson, Hrólfur Ingólfsson, Sigurður Magnússon, Ásmundur Steinsson, Þórarinn Guðmundsson, Gunnar Hlíðar, Lýður Brynjólfsson, Tryggvi Guðmundsson, Sveinn Magnússon, Haraldur Kristjánsson, Hallgrímur Þórðarson.
Fremri röð frá vinstri:  Gunnar Sigurmundsson, Haraldur Sigurðsson, Sveinbjörn Guðlaugsson, Sigurður Ágústsson, Haraldur Þorkelsson, Lárus Á. Ársælsson, Helgi Þorsteinsson, Sveinn Ársælsson, Ragnar G. Jónsson, stjórnandi kórsins, Hafsteinn Snorrason, Pálmi Pétursson, Axel Halldórsson, Ólafur Halldórsson, Þorgils Þorgilsson, Óskar Þórarinsson, Ólafur Jónsson.

KKVE annar

1936-1939

Litlar upplýsingar er að finna um Karlakór Vestmannaeyja sem starfaði að öllum líkindum á árunum 1936-39, undir stjórn Sigmundar Einarssonar.

KKVE hinn fyrsti

1881-1910

Karlakór Vestmannaeyja hinn fyrsti starfaði um þriggja áratuga skeið um aldamótin 1900.

Kórinn var stofnaður haustið 1881 og var Sigfús Árnason organisti stjórnandi kórsins fyrstu árin, kórinn var oft kenndur við hann, nefndur Karlakór Sigfúsar Árnasonar.

Kórinn var fremur fámennur í upphafi en stofnmeðlimir hans voru tólf, þeim fjölgaði þó smám saman.

Þegar Sigfús fluttist til Ameríku 1905 tók við kórnum sonur hans, organistinn og tónskáldið Brynjólfur Sigfússon. Undir hans stjórn starfaði Karlakór Vestmannaeyja líklega til 1910, en um það leyti sameinaði Brynjólfur kórinn og kirkjukórinn í Vestmannaeyjum sem hann stjórnaði einnig, og var þá myndaður blandaður kór en hann varð síðar meir að Vestmannakórnum sem starfaði lengi í Eyjum.