Karlakór Vestmannaeyja
Fyrst stofnaður 1881
Sá Karlakór Vestmannaeyja sem starfar í dag var stofnaður um miðjan apríl árið 2015 og var það í fjórða skiptið sem vitað er að Karlakór Vestmannaeyja tók til starfa.
Forsaga endurvakningarinnar er sú að Ágúst Halldórsson fékk þá flugu í höfuðið eftir að hafa fylgst með Fjallabræðrum ganga um Herjólfsdal og fagnað sem rokkstjörnum að þetta væri eitthvað sem hann vildi upplifa. Með aðstoð samfélagsmiðla henti hann hugmyndinni út í kosmósið og fékk valinkunna menn sér til aðstoðar. Nokkrum klukkustundum síðar var kominn vísir að karlakór. Tilviljunin ein réði því að akkurat um þessar mundir hafði ráðið sig til söngkennslu við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum, Þórhallur Barðason. En hann hafði mikla reynslu af kórstjórn og hafði t.a.m. nýverið sigrað Söngkeppni Framhaldsskólanna með Kór Tækniskólans. Honum var því boðið starf stjórnanda hins nýja Karlakórs Vestmannaeyja, sem hann þáði með þökkum.
Hlutirnir gerðust hratt og streymdu að karlmenni sem vildu vera með. Áður en langt var liðið var kórinn kominn í sjónvarpið og öll stærstu svið landsins, Herjólfsdal og Hörpu. Hefur kórinn verið sísyngjandi síðan þá.
Í lok ársins 2022 dróg Þórhallur sig í hlé sem stjórnandi og tók Matthías Harðarson, núverandi stjórnandi, við sprotanum.
Aðal undirleikari kórsins er og hefur verið frá upphafi Kitty Kovács. Þó ýmsir hafi þó hlaupið inn í forföllum.

